Í nýju aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar er það gert að markmiði að flug frá Ísafjarðar- og Þingeyrarflugvelli verði mögulegt allan sólarhringinn. Einnig er stefnt að því að millilandaflugvöllur verði staðsettur í sveitarfélaginu.

Frá þessu er greint á vef Bæjarins bestu á Ísafirði.

Þar kemur fram að í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir að nýr millilandflugvöllur geti risið innan sveitarfélagsins en ekki er tekin afstaða til staðsetningar.

Þó skal flugvöllurinn geta þjónað algengustu farþega- og vöruflutningavélum sem nýttar eru í millilandaflugi í dag. Þá er talið mikilvægt að hefja sem fyrst rannsóknir fyrir staðarvali flugvallarins en nefndir hafa verið staðir eins og Sveinseyri í Dýrafirði, Arnarnes og Vellir (Hnífsdalsbryggja) í Skutulsfirði.

Sjá nánar vef Bæjarins Bestu.