Ríkissjóður hefur nú tilkynnt þá ákvörðun sína að selja eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja hf. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir ráðgjafa til að verðmeta fyrirtækið, gera sölulýsingu af fyrirtækinu og aðstoða síðan við söluferlið.

Samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu HS hefur söluferlið ekki verið útfært í smáatriðum og til dæmis ekki ljóst hvort einhverjar takmarkanir verða á því hverjir mega bjóða.

Í frétt hitaveitunnar kemur fram að líklegt megi telja að um tveggja þrepa ferli verði að ræða þar sem fyrst verði óskað eftir að áhugaðilar gefi sig fram og síðan verði í næsta þrepi fengin tilboð frá þeim sem uppfylla þau skilyrði sem sett verða. Fyrirhugað er að ljúka þessu ferli fyrir vorið en þá reynir væntanlega á forkaupsréttarákvæði samþykkta félagsins en í 9. grein samþykktanna segir m.a. þetta:

?Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu skulu hluthafar hafa forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þó má eigi líða lengri tími en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Ef fyrir liggur tilboð frá þriðja aðila sem forkaupsréttarhafi gengur inn í skulu ákvæði þess tilboðs um greiðsluskilmála gilda.?

Í fréttinni á heimasíðu HS kemur fram að engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort forkaupsréttarákvæðið verður nýtt en af máli manna má ráða að það verði næsta örugglega gert. Hluthafarnir þurfa þá að vinna að fjármagna kaupin sem þeir gætu m.a. gert með því að selja bréfin aðila sem þeir hefðu áhuga á að starfa með og hefði áhuga á að taka þátt í frekari uppbyggingu fyrirtækisins.


Ríkissjóður á 15,203% af hlutafé fyrirtækisins sem er alls kr. 7.454.816.000 og hlutur ríkissjóðs þá að nafnverði kr. 1.133.356.000. Í ársbyrjun 2006 var eigið fé fyrirtækisins þá kr. 13.771.251.000 og ?innra virðið? þá 1,847. Niðurstöður ársreiknings 2006 liggja ekki fyrir en ljóst að aukning varð á eigin fé á árinu.