Áreiðanleikakönnun vegna kaupa félagsins Garðarshólma ehf. á Senu hf. er lokið og hafa nýir eigendur fengið félagið afhent. Yfirtakan miðast við 1. maí síðastliðinn. Garðarshólmi er í eigu Jóns Diðriks Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar. Að sögn Jóns Diðriks er gert ráð fyrir að stjórnendur Senu komi inn í eigendahóp félagsins.

Hve stóran eignarhlut er um að ræða er ekki ákveðið. Að sögn Jóns Diðriks er ekki áformað að ráðast í miklar breytingar á félaginu til að byrja með. Magnús Guðmann hefur verið ráðinn nýr fjármálastjóri hjá félaginu en fjármálastjórn var áður í höndum móðurfélagsins 365.