„Ég geri ráð fyrir því að áfrýja málinu núna strax í lok vikunnar," segir Sigurmar Albertsson hrl., lögmaður Lýsingar, en héraðsdómur dæmdi á föstudaginn fyrir helgi gengistryggingu í lánasamningi við viðskiptavin fyrirtækisins ólögmæta.

Talið er að staðfesting Hæstaréttar á niðurstöðu héraðsdóms geti haft umtalsverð áhrif á mál tugþúsund manna sem tóku gengistryggð lán hjá bönkum og smærri fjármálafyrirtækjum. Miðað við núverandi gengisvísitölu nemur virði gengistryggðra bílalána til landsmanna meira en hundrað milljörðum.

Upphæðirnar eru nokkru hærri til húsnæðiskaupa, eða sem nemur um 200 milljörðum. Samningar eru þó mismunandi og ekki víst að dómur muni breyta stöðu mála hjá öllum sem eru með gengistryggða lánasamninga.

Héraðsdómur hafði áður komist að því svipaður lánasamningur SP fjármögnunar við viðskiptavin, hafi verið löglegur. Því hafa tvær niðurstöður komið fram í héraði.

Sigurmar segir að það þurfi að skila inn frekari gögnum til Hæstaréttar, en skipti miklu máli að málsmeðferðin sé vöndum. „Það eru miklir hagsmunir í húfi og því þarf að vanda til verka."

Þorsteinn Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir erfitt að segja til um hversu langan tíma það muni taka að klára málið. Fyrst þurfi það að koma inn á borð Hæstaréttar, sem það hefur ekki gert enn.

„Þegar máli er áfrýjað fær sá sem áfrýjar allt að sex vikna frest til þess að þingfesta málið. Hann gæti þingfest strax daginn eftir okkar vegna en hann getur dregið það í allt að sex vikur. Síðan fær gagnaðilinn fjórar vikur til þess að skila sinni greinargerð. Hann getur einnig skilað henni strax daginn eftir ef því er að skipta. Síðan fá báðir aðilar þriggja vikna sameiginlegan gagnaöflunarfrest, nema þeir lýsi því yfir að þeir þurfi ekki á honum að halda. Að þessu loknu kemur það inn á okkar borð og þá er hægt að taka ákvörðun um hvenær það fer á dagskrá."

Óljóst er því hversu langur tími mun líða þar til Hæstiréttur dæmir um lögmæti gengistryggðra lána.