Stefnt er að því að í Ísafjarðarbæ þróist sjálfbær ferðaþjónusta sem hámarkar ávinning íbúa svæðisins og upplifun ferðamanna en gengur ekki á náttúruleg eða menningarsöguleg gæði svæðisins.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu (BB) á Ísafirði.

„Náttúra og saga Ísafjarðarbæjar er auðlind sem mun draga að sér mun fleiri ferðamenn og er jafnvel gert ráð fyrir að hér verði meiri aukning en að meðaltali á landinu. Litið hefur verið á ferðaþjónustu sem mikilvægan þátt í framtíðarþróun atvinnulífs á Vestfjörðum og aukningu efnahagvaxtar. Hafa verður þó í huga að greinin byggir á þeim gæðum náttúru og samfélags sem til staðar eru og aukinn fjöldi ferðamanna veldur álagi á náttúru, samfélag og innviði þess“, segir í drögum að aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2008-2020 sem kynnt verður fyrir íbúum og hagsmunaaðilum í mánuðinum.

Þá kemur fram í frétt BB að í greinargerð með drögunum er bent á að ósnortnum svæðum í heiminum fer fækkandi og fyrir vikið verða slík svæði verðmætari.

Sjá nánar vef Bæjarins Bestu.