Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti sína um 0,5-0,75% samhliða útgáfu Peningamála í dag. Seðlabankinn hefur nú þegar hækkað stýrivexti um 1,95% í fimm þrepum á þessu ári og standa þeir nú í 7,25% og verða því á bilinu 7,75-8,0% gangi spá Landsbankamanna eftir.

Seðlabankinn hefur ekki birt verðbólguspá frá því í júní en frá þeim tíma hafa töluverðar breytingar átt sér stað í efnahagslífinu sem kalla á aukið hagstjórnaraðhald frá hendi Seðlabankans. "Nýlega var birt skýrsla sem Seðlabankinn vann fyrir félagsmálaráðuneytið þar sem varað var við efnahagslegum afleiðingum þess að reglur um húsnæðislán yrðu rýmkaðar um of. Nú liggur fyrir að húsnæðislán bankanna hafa lækkað fjármagnskostnað heimilanna umtalsvert auk þess sem verulegar skattalækkanir koma til framkvæmda á næstu árum," bendir greiningardeildin á í Vegvísi sínum frá því í gær.

Þar er einnig bent á að vöxtur innlendrar eftirspurnar verði áfram mikill og því verður Seðlabankinn að bregðast við af fullum krafti ef takast á að koma í veg fyrir að verðbólgan fari úr böndum á næstu árum.