Samdráttur á bandaríska fasteignamarkaðinum mun hafa meiri áhrif á hagvöxt í landinu en áður var talið. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal hagfræðinga en hún var tekin saman fyrir samtökin National Association for Business Economics.

Fram kemur í könnuninni það mat að hagvöxtur verði um 2,3% á þessu ári. Í sambærilegri könnun sem var gerð í febrúarmánuði var gert ráð fyrir 2,8% hagvexti. Reynist spáin rétt er um að ræða minnsta hagvöxt í Bandaríkjunum frá árinu 2002 en þá var hagkerfið búið að ganga í gegnum samdráttarskeið og var hagvöxtur á árinu aðeins 1,6%. Fjörtíu og átta hagfræðingar tóku þátt í könnuninni og telja þeir að fasteignamarkaðurinn sé myllusteinninn um háls hagkerfisins. Eftir að fasteignaverð hafði hækkað linnulaust í fimm ár tók að bera á samdrætti á síðasta ári og er það mat helmings þeirra hagfræðinga sem tóku þátt í könnunni að dýfan á fasteignamarkaðinum muni ekki taka á enda fyrr í fyrsta lagi á fjórða ársfjórðungi þessa árs.

Hagfræðingarnir sem tóku þátt í könnuninni telja þó að hagkerfið taki við sér á næsta ári auk þess sem að hald þeirra er að ekki séu miklar líkur á samdráttarskeiði á næsta ári. Þeir spá um þriggja prósenta hagvexti árið 2008. Ástæða hagvaxtaraukningar milli ára telja þeir felast í aukinni fjárfestingu, betri birgðastöðu auk þess að gert er ráð fyrir að stöðugleiki verði kominn á fasteignamarkaðinn. Fleiri en helmingurinn af þeim hagfræðingum sem tóku þátt í könnuninni telja að minnsta kosti fjórðungslíkur á að samdráttarskeið verði í hagkerfinu á næstu tólf mánuðum. Fyrr í ár sagði Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, líkurnar vera einn á móti þrem.

Hagfræðingarnir sem tóku þátt í könnuninni telja að verðbólga í Bandaríkjunum verði 2,9% árinu sem er mun hærri en spáð var í febrúarkönnuninni, en þá var spáð 2,4% verðbólgu. Aukin svartsýni á verðbólguhorfur má rekja til væntinga um frekari hækkana á olíu og öðrum orkugjöfum. Seðlabanki Bandaríkjanna gerir hinsvegar ráð fyrir að hægari snúningur á hjólum atvinnulífsins dragi úr verðbólguþrýstingi.