Í tíu ára rekstraráætlun Ríkisútvarpsins sem lögð var fyrir menntamálanefnd Alþingis á dögunum er, að sögn Páls Magnússonar útvarpsstjóra, gert ráð fyrir því að sókn RÚV á auglýsingamarkað verði óbreytt frá því sem nú er. "Sóknin þyngist ekki frá því sem nú er heldur er gert ráð fyrir að hlutfall auglýsingatekna af heildartekjum verði hið sama og nú er, sem sagt um það bil þriðjungur," segir Páll.

Áætlunin, sem yfirfarin var af Ríkisendurskoðun, var gerð til þess að fyrir lægi hvort rekstur Ríkisútvarpsins fengi staðist eftir fyrirhugaða breytingu þess í opinbert hlutafélag. Niðurstaðan er að svo sé og segir Páll að þrátt fyrir óbreytt hlutfall auglýsingatekna verði reksturinn réttum megin við núllið. Taka ber fram að áætlunin er ekki bindandi og því ekki hægt að líta á óbreytt hlutfall auglýsingatekna sem skuldbindingu.

Samfylkingin kynnti í gærmorgun tillögur að nýrri sátt um Ríkisútvarpið þar sem meðal annars er lagt til að hlutfall auglýsingatekna verði bundið við að hámarki 15-20% af heildartekjum. Páll Magnússon segir ljóst að í þessu felist allt að helmingslækkun á auglýsingatekjum, sem eru um þriðjungur heildartekna í dag eins og fyrr segir. Til að mæta því verði annað hvort að hækka ríkisframlagið eða draga úr þjónustunni. Ekki kemur fram í tillögum Samfylkingarinnar hvora leiðina eigi að fara.

Önnur umræða um frumvarp um hlutafélagavæðingu RÚV fór fram á Alþingi í gær en öfugt við það sem stefnt var að hefur verið ákveðið að fresta lokaafgreiðslu frumvarpsins fram yfir áramót.