Útlit er fyrir að íslenska ríkið þurfi að greiða 26 milljarða króna á þessu ári vegna ríkisábyrgðar á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta og skuldbindinga hans sem rekja má til Icesave-reikninga Landsbankans. Þetta kemur fram í greiðsluáætlun fjármálaráðuneytisins sem kynnt hefur verið í fjárlaganefnd. Nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun um nýtt Icesave-frumvarp sem byggir á samkomulagi við Breta og Hollendinga sem undirritað var í desember sl.

Takist ekki að afla því fylgi á þingi, að staðfesta ríkisábyrgð á Icesave-skuldinni, mun málið fara á byrjunarreit á ný.

Greiðsluáætlunin gerir ráð fyrir samtals 58,9 milljarða greiðslum fram til ársins 2016. Á árunum 2012 eru þær áætlaðar 10,4 milljarðar, 2013 8,6 milljarðar, 2014 sjö milljarðar, 2015 fimm milljarðar og 2016 1,8 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.