Grikkir verða að búa sig undir meiri skell en áður en viðbúið er að efnahagslífið dragist saman um 5%. Það er meira en áður var reiknað með gangi útreikningar hugveitunnar The Foundation for Economic and Industrial Research (IOBE) eftir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir 4,8% samdrætti á Grikklandi á þessu ári.

Í skýrslu hugveitunnar um stöðu Grikklands, sem birt er á vef Nasdaq-kauphallarinnar í Bandaríkjunum, kemur m.a. fram að atvinnuleysi muni fara úr 17,3% í fyrra í 20% á þessu ári og svo mjög draga úr eftirspurn neysluvara að verðbólga fari úr 3% í fyrra undir 1% á þessu ári.

Yannis Stournaras, framkvæmdastjóri IOBE, segir samdráttinn verða fremur snarpann, draga megi úr honum með sölu ríkisfyrirtækja eins og stefnt hafi verið að. Einkavæðing grískra stjórnvalda hefur hins vegar dregist á langinn.

Grikkjum var bjargað fyrir horn í nýliðnum mánuði. Björgunin fólst í 130 milljarða evra neyðarláni sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veittu stjórnvöldum til að gera landinu kleift að standa við skuldbindingar sínar. Ríkisstjórn Lucas Papademos situr hins vegar ekki með hendur í skauti en búist er við að forsætisráðherrann muni tilkynna fyrir mitt ár um mikilvægi þess að draga frekar úr ríkisútgjöldum á næstu tveimur árum.

Skuldapakki Grikklands ræddur í Brussel
Skuldapakki Grikklands ræddur í Brussel
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, ræðir við Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.