Áætlað er að tekjur ríkisins af legugjöld á sjúkrahúsum á næsta ári verði 290 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG.

Gert er ráð fyrir að langstærsti hlutinn, eða um 200 milljónir króna, komi frá Landspítalanum. Liðlega 22 milljónir króna munu svo koma annarsvegar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og hins vegar frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

„Miðað er við að innheimta 1.200 kr. gjald fyrir hvern legudag og er gjaldinu ætlað að koma á móti svonefndum hótelkostnaði sjúkrahússins. Gjaldið er í samræmi við sólarhringsgjald sem innheimt er af sjúklingi sem dvelur á sjúkrahóteli. Á árinu 2012 var meðallengd legu á sjúkrahúsi á bilinu átta til níu dagar, en það þýðir 10–11 þús. kr. gjald fyrir legu að jafnaði. Að gefnum upplýsingum um meðallengd legu má ætla að fjöldi greiðenda gæti verið á bilinu 27–30 þúsund,“ segir í svarinu.