Gert er ráð fyrir því að Eyrir Invest hagnist um 14 til 19 milljónir evra, frá 2 til 2,8 milljarða króna, á fyrri hluta ársins. Afkoman skýrist að mestu af hækkun á hlutabréfaverði Marel og lækkun á virðismati á eignarhlut Eyris í hollenska iðnfyrirtækinu Stork vegna markaðsaðstæðna.

Lykileignir Eyris eru 33% hlutur í Marel sem metinn er á 33,7 milljarða króna á markaðsgengi dagsins og 17% hlutur í Stork. Stork á og rekur Technical Services og Fokker Technologies. Fram kemur í tilkynningu frá Eyri að félagið færi eignarhluti í óskráðum lykileignum á gangvirði (e. fair value).

Þá segir í tilkynningunni að fjárhagsstaða Eyris sé traust. Heildareignir nema nærri 400 milljónum evra, jafnvirði 59 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið yfir 50%.

Eyrir Invest hagnaðist um 957 þúsund evrur í fyrra, tæpar 142 milljónir króna. Eignir um áramótin námu þá sömuleiðis rétt tæpum 400 milljónum evra.