Fjármálaáætlun ríkisins til ársins 2021 sem nýframkomið fjárlagafrumvarp byggir á gerir ráð fyrir að gjaldskrár muni hækka um komandi áramót.

Kemur þetta fram í kynningu fjármálaráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið 2017, og er gert ráð fyrir 1,7 milljarða tekjuauka á árinu vegna þeirra.

Gistináttagjald hækkar eftir næsta sumar

Er þar talað um að gjaldskrár bensíngjalds, olíugjalds, kolefnisgjalds, bifreiðagjalds auk gjalda á áfengi og tóbak muni hækka um 2,5% umfram verðbólgu fyrsta janúar næstkomandi.

Fyrsta september muni svo gistináttagjaldið hækka úr 100 krónum í 300 krónur á hverja gistinótt sem skila eigi einum milljarði á öllu árinu 2018.

Lækkun skatta á síðari hluta tímabilsins

Síðar meir gerir áætlunin ráð fyrir að bankaskatturinn verði lækkaður í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2020 til 2023, og fari úr 0,376% í 0,145% sem lækki tekjur ríkisins um 5,6 milljarða á verðlagi ársins 2017.

Skatthlutfallið hefur verið í 0,376% síðan árið 2014 þegar það var hækkað úr 0,145% vegna fjármögnunar höfuðstólsleiðréttingar húsnæðislána.