Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Háskólans í Reykjavík, segir að niðurfelling styrks upp á 500 milljónir frá félaginu Salt Investments hafi ekki mikil áhrif á rekstur skólans.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir að fjárhæðin frá félaginu, sem er í eigu Róberts Wessman, myndi skila sér.

"Við gerðum ekki ráð fyrir því að fjármunirnir myndu koma. Samningurinn sem var gerður á sínum tíma hljóðaði upp á milljarð króna styrk til skólans. Eftir efnahagshrun sömdum við um að helmingur greiðslunnar fengist," segir Þorkell. Hann segir enn fremur að því hafi þó alltaf verið haldið opnu að afgangurinn myndi berast en var bundið því hvernig mál þróuðust. "Við fengum 500 milljónir króna og það hjálpaði okkur mikið."