Stærstu hluthafar í Icelandair Group; Framtakssjóður Íslands, Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis, gerðu samkomulag við Icelandair sem kveður á um að haldið verði hlutum, sem voru í eigu félaganna fyrir hlutafjárútboð, í að minnsta kosti tvö ár. Það er í nóvember 2012 en samkomulagið var gert seint á síðasta ári.

Þeim er þó öllum heimilt að selja það sem keypt var í útboðinu um daginn auk þess sem fyrrnefndir aðilar mega selja allt að 3% hlut í einu í samkomulagi við aðra hluthafa.

Íslandsbanki vill selja fyrr

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að Íslandsbanki hyggist leita eftir samkomulagi um að setja alla sína hluti í söluferli innan fyrrnefndra tveggja ára. Þannig gæti myndast nýr kjölfestufjárfestir í félaginu, hvort sem er innlendur aðili eða erlend flugfélög sem mörg hver hafa áhuga á því að eignast hlut í félaginu.

Þetta er í samræmi við stefnu Íslandsbanka um að halda ekki of lengi á hlutabréfum fyrirtækja. Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, hefur jafnframt lýst því yfir, m.a. í viðtali í Viðskiptablaðinu á síðasta ári, að bankinn ætli sér ekki að sitja á þeim hlutabréfum sem hann hefur þurft að leysa til sín.

Töluverð viðskipti hafa verið með hluti í félaginu frá því að nýir hlutir voru teknir til viðskipta á mánudag en við lok markaða í gær var gengi félagsins 3,7.