Sindri Jóhannsson stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki 18 ára gamall, litla auglýsingastofu sem meðal annars gerði heimasíður. Út frá því fékk hann vinnu hjá markaðsdeild WOW air, og vann þar mikið með samfélagsmiðla. Um sumarið í fyrra fór hann svo að vinna í litlu hliðarverkefni. „Ég var að reyna að búa til svona gervigreindartól sem gæti spáð fyrir um hvaða efni yrði vinsælt á samfélagsmiðlum. Fyrsta mánuðinn var þetta bara eitthvað sem ég var ekkert að spá í, ég var bara að leika mér eitthvað á kvöldin á meðan ég var að horfa á sjónvarpið.“

Ketchup og kjúklingavængir
Sindri bjó á þeim tíma með vini sínum úr menntaskóla, Arnari Eyfells, sem þar til nýlega starfaði hjá markaðsdeild NOVA. Eitt kvöldið ákvað Sindri að sýna Arnari verkefnið, og úr varð samstarf sem í dag er orðið að Ketchup Creative. „Allt í einu fannst mér þetta byrja að verða eitthvað. Ég hafði ekki sýnt neinum þetta, en Arnar er þarna við hliðina á mér að borða einhverja kjúklingavængi og ég ákveð bara að sýna honum þetta. Hann verður svakalega spenntur fyrir þessu og ég byrja að útskýra hugmyndina á bak við þetta. Hugmyndin er að nota gervigreindartól til að skanna vefinn – við völdum einhverjar topp 100 síður á Facebook til að byrja með – og læra hvað þeir gera vel og reyna að nýta það til að búa til nýjar hugmyndir.“

Félagarnir stofnuðu Ketchup Creative í janúar, en auk þess að þróa gervigreindarhugmyndina, sem í dag gengur undir nafninu Viral Uno, vinnur fyrirtækið að markaðsmálum fyrir önnur fyrirtæki. „Við vorum heppnir að fá strax til okkar frábær fyrirtæki eins og Íslandsbanka og WOW air og fleiri fyrirtæki, og höfum verið að þróa samfélagsmiðlaefni með þeim undanfarið. Í kringum framleiðslu á efni eru núna komnir sex starfsmenn hjá fyrirtækinu.“

Efnið dreifi sér sjálft
Eftir því sem verkefnið vatt upp á sig fór að renna upp fyrir þeim að þeir þyrftu að stækka við sig. „Ég hafði svona takmarkaða kunnáttu í þessu á sínum tíma og var bara að gúgla mig í gegnum þetta. Áður en við vissum af voru öll kvöldin okkar byrjuð að fara í þetta og undir lok árs var þessi hugmynd orðin að einhverju miklu stærra. Þar sem ég var löngu kominn fram úr minni tæknilegu kunnáttu fórum við að leita að hugbúnaðarsérfræðingi til að ganga til liðs við okkur.“

Þeir fundu loks rétta manninn erlendis, og þegar þeir fengu frumútgáfuna frá honum í lok mars ákváðu þeir að leggja aukna áherslu á þróun vörunnar. „Við sjáum fyrir okkur í dag að þetta gæti þróast í að verða eitthvað sem markaðsdeildir og auglýsingastofur gætu nýtt sem miðpunkt í sinni starfsemi á næstu árum. Við erum í dag búnir að byggja upp fjögurra manna hugbúnaðarteymi í fullu starfi sem vinnur alfarið að þessu.“

Hluti af hugmyndafræðinni á bak við Viral Uno, eins og nafnið gefur til kynna, er að efnið dreifi sér að miklu leyti sjálft. „Hugsunin er að vera ekki að setja mikinn þunga í hefðbundnar birtingar; framleiða frekar gott efni en að kaupa dreifingu fyrir lélegt efni.“

Strákarnir leita nú að samstarfsaðilum til að prufukeyra vöruna og hyggjast gefa út fyrstu útgáfu hennar næstkomandi mars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .