Stefán Kári Sveinbjörnsson og Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir stofnuðu Greenfo í lok síðasta árs út frá hugmynd sem þau fengu þegar þau unnu saman í loftslagsbókhaldinu hjá Landsvirkjun.

„Við vorum að sinna allskyns útreikningum tengdum kolefnisbókhaldi og sáum þarna hörkutækifæri í því að reikna kolefnisspor fyrirtækja á sem réttastan og skilvirkastan hátt. Við fórum í kjölfarið að þróa hugbúnað sem nýtir gervigreind til þess að reikna kolefnissporið fyrir alla virðiskeðjuna, enda verður langstærstur hluti þess til utan fyrirtækisins við framleiðslu þeirra aðfanga sem þau kaupa. Við reiknum þessa þætti alla, sem tiltölulega fá fyrirtæki bjóða upp á í dag.“

Stefán segir sýnisútgáfu vörunnar (e. minimum viable product) þegar vera tilbúna, og félagið er með nokkur fyrirtæki og stofnanir í viðskiptum í dag. „Við viljum ekki taka of mörg inn núna í fyrstu lotu, og enda kannski á að sinna þeim illa. Sú gagnavinna sem nú stendur yfir tekur bara sinn tíma.“

Vilja gera vel en skortir upplýsingar
Nálgun Greenfo vinnur út frá fjárhagsbókhaldi viðkomandi fyrirtækja og innkaupum, og byggir á vel þekktu og viðurkenndu ferli. Gervigreindin flokkar og greinir þessa þætti og reiknar svo kolefnissporið út frá þeim. Með því að byggja á því staðlaða ferli sem fjárhagsbókhald er, og sem fyrirtæki stunda nú þegar, segir Stefán kerfið vera mun aðgengilegra en mörg önnur slík kerfi.

„Það vilja öll fyrirtæki gera vel, þau bara vita oft ekki hvað kolefnissporið þeirra er, hvernig er best að draga úr því og hvað það kostar. Að komast að því getur verið mjög tímafrekt ferli, og oft er því hent á einhvern einn starfsmann, sem þá þarf að gerast sérfræðingur í þessum málum á stuttum tíma. Okkar þjónusta gerir þetta ferli bæði fljótlegt og nákvæmt.“

Gervigreindin tengir færslur úr hreyfingalista fyrirtækjanna við einstaka birgja og rekur losun hvers og eins þeirra eins vel og hægt er, oft út frá gögnum frá þeim sjálfum. „Niðurstaðan er loftslagsbókhald fyrirtækja sem er á pari við fjárhagsbókhaldið, í þeim skilningi að fyrirtækið er jafn meðvitað um hvar það stendur í loftslagsmálum og fjárhagslega.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .