Vogunarsjóðir sem nota gervigreind í fjárfestingarákvörðunum og tímasetningu þeirra – svokallaðir AI-sjóðir ( Artificial Intelligence Funds / AI-funds ) – hafa skilað betri árangri undanfarin ár heldur en hefðbundnari vogunarsjóðir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Eurekahedge. ValueWalk segir frá.

Samkvæmt vísitölu Eurekahedge, AI/Machine Learning Hedge Fund Index , sem mælir árangur 23 vogunarsjóða sem nota gervigreind í fjárfestingum, hafa AI-sjóðir náð betri árangri heldur en vogunarsjóðir sem beita reikniritsaðferðum og megindlegum aðferðum og vogunarsjóðir í mannlegri stýringu síðan árið 2010. AI-sjóðir hafa skilað 8,44% ávöxtun á ári hverju undanfarin sex ár á meðan aðrir vogunarsjóðir sem ekki notfæra gervigreind í fjárfestingum hafa að jafnaði skilað 1,62–2,62% ársávöxtun.

Samkvæmt ValueWalk gæti tvennt útskýrt árangur AI-sjóða sem og ástæðuna fyrir því að þeir ná að spá betur fyrir um markaðssveiflur heldur en aðrir vogunarsjóðir. Annars vegar gæti verið offramboð af vogunarsjóðum sem nota megindlegar aðferðir í fjárfestingum. Hins vegar gætu rannsóknarlíkön sjóðanna verið gölluð.

Yoshinori Nomura, framkvæmdastjóri Simplex Asset Management og einn helsti forsprakkinn í hönnun AI-sjóða, segir þrjá þætti útskýra árangur AI-sjóða. Í fyrsta lagi ættu algóritmar að vera eins einfaldir og hægt er. Í öðru lagi þarf að hanna kerfi sem fylgist með markaðsumhverfinu. Í þriðja lagi þarf kerfið að vera sveigjanlegt til þess að aðlagast markaðsaðstæðum hverju sinni.

Fyrir stjórnendur AI-sjóða er það þó óleyst ráðgáta hvað veldur markaðssveiflunum sem gervigreindin nær að spá fyrir um.