Brynja Baldursdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts fyrr á árinu eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu síðan árið 2013. Hún segir að það hafi ekki verið að hennar frumkvæði sem hún fékk tækifæri til að ganga til liðs við Creditinfo.

"Sem er eftir á að hyggja frekar ótrúlegt. Því að þegar ég fór að máta þetta við mig þá tikkaði þetta í öll boxin. Mér finnst ég algjörlega vera á réttum stað í dag. Allt sem ég hef verið að gera, þótt þetta hafi verið þessi þróun frá upplýsingatækni, yfir í vefmálin og svo yfir í sölu small allt saman hér hjá Creditinfo. Ég hef getað nýtt öll tækin og tólin sem ég er búin að afla mér á leiðinni,“ segir Brynja.

Bylting á næstu misserum

Þessi misserin er að verða mikil framþróun í möguleikum á því að greina mikið magn af upplýsingum með aðstoð tölva. Aðspurð segir Brynja að tækniþróunin opni tækifæri fyrir Creditinfo.

Í ljósi þessarar nýju tækni, má ímynda sér að einhvern tímann í framtíðinni muni gervigreind taka ákvörðun um lánveitingar?

Brynja veltir spurningunni fyrir sér og hlær. „Af hverju ekki?“ segir hún létt í bragði.

„Það er þannig í dag að einhverjar lánastofnanir byggja úttektarheimildir alfarið á sjálfvirkri gagnaöflun og mati og mannshöndin kemur þar hvergi nærri. Þetta er auðvitað ákveðin tegund af gervigreind. En ég er nú á því að í mörgum tilfellum mun tölva aldrei koma í stað mannlegrar ákvarðanatöku, sem er oft nauðsynleg við lánveitingar. Dæmi um þetta gæti verið þegar fyrirtæki ákveður að aðstoða traustan langtímaviðskiptavin í að komast yfir tímabundna erfiðleika.

Íbúðalán í einni heimsókn

Hafandi sagt þetta þá eru lánaferlar alltaf að verða sjálfvirkari og fljótlegri. Nýleg vara hjá okkur er greiðslumatskerfi, sem tekur feril sem lánastofnanir hafa verið að gefa sér allt að þrjár vikur að framkvæma. Nú er þetta bara gert á staðnum og framkvæmt af framlínustarfsmanni. Ég veit meira að segja til þess að það hafi verið afgreitt húsnæðislán í einni snertingu, bara í fyrstu heimsókn. Það er himinn og haf á milli þess og að bíða í þrjár vikur.

Þarna er betra aðgengi að gögnum og upplýsingatækni, starfsmaðurinn er leiddur í gegnum ferlið þannig að það er auðvelt og tryggt að öllum gögnunum sé safnað, sem gerir þetta kleift. Þetta er bara eitt dæmi um þróunina sem hefur verið að eiga sér stað og ég held að við eigum eftir að sjá þessa ferla alla umbyltast á næstu mánuðum og árum.“

Ítarlegt viðtal við Brynju er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .