David Calhoun, sem setið hefur sem stjórnarformaður bandarísku Boeing flugvélaverksmiðjanna frá því í október og tekur við forstjórastarfinu um miðjan janúar, býður ærið verkefni að koma kyrrsettum flugvélum af gerðinni Max 737 í loftið á ný.

Á meðan fær fráfarandi forstjóri, Dennis Muilenberg, veglega greiðslu nú þegar hann hverfur frá félaginu, því brottför hans sem Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum er ekki formleg uppsögn sem myndi leyfa félaginu að losna við allar greiðslurnar.

Segir CBS fréttastöðin frá því að í heildina fær hann um 26,5 milljónir dala í greiðslur í formi bæði peninga og hlutabréfa, sem samsvarar um 3,2 milljörðum. Upphæðin gæti þó náð 58,5 milljónum dala í heildina, en það fer eftir hvernig félaginu gengur næstu þrjú árin. Það samsvarar um 7,2 milljörðum króna.

Mikil fjölgun frá því í sumar

Í heildina hafa um 400 vélar safnast upp hjá félaginu, sem ekki hefur verið hægt að koma til viðskiptavina, á flugvallastæðum og jafnvel bílastæðum við verksmiðju fyrirtækisins. Á sama tíma hafa flugvélahlutar safnast upp hjá birgjum félagsins sem eins og Viðskiptablaðið greindi frá hafa ekki orðið varhluta af ákvörðun Boeing um að hætta framleiðslu tímabundið.

Stærð vandamálsins sést vel á gervihnattarmyndum sem Business Insider hefur birt af flugvélaframleiðslustöðum Boeing, þar á meðal hjá Moses vatni við Seattle borg í Washington ríki Bandaríkjanna, en þann 8. desember voru 249 flugvélar á flugvellinum á staðnum.

Í júlí voru þær 40, en staðsetningin er stutt frá Boeing Field og Everett flugvélaverksmiðjum félagsins en á þeim stöðum verður aðalvinnan við að koma vélunum á loftið á ný. Þar hafa um 60 vélar verið geymdar frá því í júlí. Loks eru 74 vélar við viðhaldsmiðstöðina í San Antonio, þar sem félagið hefur flutt vélar norður til Kelly Field, nokkuð frá miðstöðinni.

Fyrstu vélarnar bíða á sínum stað

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa Boeing 737 Max vélar félagsins verið kyrrsettar frá því tvö alvarleg flugslys urðu á stuttum tíma, þar á meðal vélar Icelandair, sem hefur þurft að gera ráð fyrir að fá vélarnar ekki í notkun fyrr en í maí í fyrsta lagi. Flugfélögin sem hafa átt von á vélunum hafa þó getað samið við Boeing um bætur .

Flugvélaframleiðandinn hefur hins vegar haldið áfram að framleiða Boeing 737 Max vélarnar alveg þar til jólafrí starfsmanna hófst en þarf að býða enn um sinn áður en flugmálayfirvöld heimila vélunum að hefja sig til flugs á ný.

Er talið að vélarnar sem býða við Boeing Field og San Antoni verði þær fyrstu til að skila sér til viðskiptavina um leið og leyfið færst og sá hugbúnaður sem þarf að uppfæra verður komin í vélarnar.