Sex prósent færri gestir lögðu leið sína í Kringluna á fyrstu fimm mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra, samkvæmt tölum frá Kringlunni.

Á sama tíma var tveggja prósenta samdráttur á heimsóknum í Smáralind í Kópavogi.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um veltuþróun í stóru verslanamiðstöðvunum á tímabilinu. Tölur frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst, sem byggja m.a. á veltutölum frá verslunum í Kringlunni og Smáralind, sýndu að velta smásöluverslunar dróst saman í maí miðað við sama mánuð í fyrra þótt töluverð aukning hafi orðið frá apríl.

Þannig dróst velta dagvöruverslunar saman um 3,7% á föstu verðlagi á milli ára. Mestur varð veltusamdrátturinn í sölu húsgagna (-27,2%) og áfengis (-22,7%).