Eitt meðalstórt gagnaver kaupir orku fyrir um 600 milljónir króna á ári. Þá nema kaup á bandvídd um 700 milljónum króna á ári.

Þetta sagði Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, fyrir skömmu á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir. Erindi Gests bar yfirskriftina Hvers virði er gagnver?

Gestur kynnti í stuttu máli veröld og tilurð gagnavera. Hann sagði að á Íslandi væru kjöraðstæður til að reka gagnver, hér væri græn orka og mikil kæling.

Gestur sagði þó að mikil samkeppni væri um það að laða að gagnver. Hann benti á að Google hefði á síðasta ári kosið að reisa gagnaver í Finnlandi og Facebook hefði valið Svíþjóð. Í máli Gests kom fram báðir þessir aðilar hefðu skoðað Ísland en kosið að reisa gagnaver sín annars staðar.

Gestur sagði Íslendinga vera að nálgast það að verða heimsmeistarar í kreppu. Þess vegna væri mikilvægt að allir legðust á eitt við að stækka kökuna, leggja ágreiningsefni til hliðar og huga að frekari uppbyggingu. Þannig væri hægt að auka stöðugleika og bæta samkeppnisstöðu Íslands.