Gestur Hjaltason hefur óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Elko frá og með 31. desember næstkomandi en hann hefur gengt stöðunni frá árinu 2002. Þetta kemur fram í tilkynningu móðurfélagsins Festi til Kauphallarinnar.

Óttar Örn Sigurbergsson tekur við stöðunni í byrjun næsta árs en hann hefur starfað hjá raftækjaversluninni síðan 2004, síðast sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Fram kemur að Gestur verður Óttari innan handar fram á mitt næsta ár.

Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko:

„Á þessum tímamótum vil ég þakka því góða og frábæra fólki sem ég hef starfað með og átt í viðskiptum við í gegnum árin hjá Elko. Það hafa verið forréttindi að vera hluti af þeirri liðsheild sem Elko býr yfir og er ég stoltur að þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð. Ég skil við félagið í traustum höndum Óttars sem fær það verðuga verkefni að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í sístækkandi rafvöru- og smásölumarkaði.“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi:

„Ég vil þakka Gesti fyrir frábært samstarf á undanförnum árum. Það er óhætt að segja að Gestur hafi haft mikil og jákvæð áhrif á rekstur og velgengni Elko í áranna rás enda stýrt félaginu af mikilli elju í hartnær 20 ár. Fyrir hönd stjórnar Elko og Festi óska ég Gesti velfarnaðar á þessum tímamótum. Það er mikill happafengur að fá Óttar til að taka við keflinu þar sem hann þekkir afar vel til starfsemi Elko eftir 17 ára starf í þágu félagsins.“