Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Gestur Jónsson megi verja Sigurð Einarsson í markaðsmisnotkunarmáli sem Sérstakur saksóknari hefur höfðað gegn Sigurði og átta fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings.

Þegar málið var þingfest í Héraðsdómi í síðustu viku gerði Björn Þorvaldsson saksóknari þá kröfu að Gesti yrði meinað að verja Sigurð. Gestur hafði verið verjandi Sigurðar í Al-Thani málinu svokallaða en sagði sig frá málinu fyrr í þessum mánuði. Sagði Björn að í þessu máli ættu við öll sömu rök sem Gestur hafi notað þegar hann sagði sig frá Al-Thani málinu.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að ekkert sé fram komið sem geti hindrað að Gestur verði skipaður verjandi Sigurðar í málinu. Í úrskurði Héraðsdóms segir að Gestur uppfylli skilyrði til að vera skipaður verðjandi ákærðs manns í sakamáli. Það sé meginregla sakamálaréttarfarsins að við skipun verjanda skuli fara eftir ósk sakbornings.

Til að hafna kröfu sakbornings um skipun tiltekins lögmanns sem verjanda þurfa að vera ríkar ástæður. „Í þessu máli er ekkert fram komið sem bendir til annars en að lögmaðurinn muni rækja skyldur sínar af kostgæfni og samkvæmt lögum. Þótt lögmaðurinn hafi sagt sig frá verjendastörfum í öðru máli getur það ekki haft þýðingu í þessu máli. Samkvæmt þessu er kröfu sækjandans hafnað og Gestur Jónsson hrl. skipaður verjandi ákærða,“ segir í úrskurði héraðsdóms.