Gestur G. Gestsson hefur verið ráðinn forstjóri Teymis í stað Árna Péturs Jónssonar.  Gestur hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone. Áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Margmiðlunar.

Í fréttatilkynningu frá Teymi segir að Árni Pétur hafi látið af störfum hjá félaginu samkvæmt samkomulagi milli hans og stjórnar Teymis.  Árni Pétur hættir einnig sem forstjóri Vodafone, en því starfi hefur hann gegnt samhliða forstjórastarfinu hjá Teymi undanfarin ár.

Gestur er kvæntur Kristínu Þórarinsdóttur, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau 3 börn.

Nýr forstjóri Vodafone er Ómar Svavarsson. Áður en Ómar varð framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Vodafone árið 2005 var hann framkvæmdastjóri einstaklingssviðs hjá Sjóvá. Ómar er kvæntur Sigfríði Eik Arnardóttur, forstöðumanni hjá Kreditkorti, og þau eiga samtals fjögur börn.

„Árni Pétur Jónsson hefur á undanförnum árum leitt mikla uppbygggingu á Teymi og dótturfélögum þess, sem flest eru leiðandi á sínu sviði.  Í starfi sínu sem forstjóri Vodafone hefur fyrirtækið blómstrað og viðskiptavinum fjölgað mikið.  Stjórn Teymis vill nota þetta tækifæri til að þakka Árna Pétri fyrir vel unnin störf í þágu Teymis og dótturfélaga og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir í tilkynningu.