Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall hafa ákveðið að hætta störfum sem verjendur þeirra Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, eins af helstu hluthöfum bankans, í svokölluðu Al Thani máli.

Þeir segja ákvörðunina byggjast á því að þeir telji að réttur skjólstæðinga sinna til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dóma hafa ítrekað verið þverbrotinn. Steininn hafi tekið úr á fimmtudag í síðustu viku þegar Hæstiréttur kvað upp dóma í tveimur kærumálum skjólstæðinga þeirra, m.a. kröfu þeirra um að fresta málinu á meðan þeir færu yfir ný gögn fyrir aðalmeðferð málsins sem hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.

Í tilkynningu sem þeir Gestur og Ragnar hafa birt segir orðrétt:

„Við undirritaðir, Gestur Jónsson hrl. og Ragnar Halldór Hall hrl., höfum ákveðið að láta af störfum sem verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í svokölluðu Al Thani máli. Þetta höfum við tilkynnt Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag með sérstöku bréfi þar sem við gerum ítarlega grein fyrir ástæðum ákvörðunarinnar.“

Í stuttu máli byggist ákvörðun okkar á því að við teljum að réttur skjólstæðinga okkar til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dómi hafi ítrekað verið þverbrotinn. Steininn tók úr sl. fimmtudag þegar Hæstiréttur kvað upp dóma í tveimur kærumálum sakborninga án þess að verjendur fengju komið að rökstuðningi skjólstæðinga sinna, sem þeir höfðu boðað að lagður yrði fram.

Verjendur voru í miðju verki við greinargerðarskrif og lögbundinn sólarhringsfrestur til eþss að skila greinargerð rétt byrjaður að líða þegar tilkynnning barst frá Hæstarétti um að dómar hefðu verið kveðnir upp.“