Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, í al-Thani málinu efast um að Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hafi haft heimild til að dæma sig til greiðslu réttarfarssektar.

Bæði Gestur og Ragnar Hall voru dæmdir til að greiða milljón í réttarfarssekt. Þeir mættu ekki þegar aðalmeðferð í al-Thani málinu átti að fara fram í apríl. Því þurfti að fresta henni fram í nóvember.

Gestur benti á það í samtali við RÚV í dag að honum hefði ekki gefist kostur á að tjá sig fyrir dómi um réttarfarssektina og því efast hann um að hún hafi verið löglega dæmd. „Ég undrast það mjög að það geti verið niðurstaðan að það sé dæmd sekt á þessum grunni ,“ sagði hann. Hann sagðist ennfremur ekki vita hvaða möguleika hann hefði á að áfrýja niðurstöðunni.

Ragnar Hall sagði í samtali við VB.is í dag að hann undraðist þessa sekt og að hún væri há.