Forsvarsmenn Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) og Verkalýðsfélags Grindavíkur funda með Samtökum atvinnulífsins (SA) í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Eftir útspil ríkisstjórnarinnar í fyrradag eru kjaraviðræðurnar á mjög viðkvæmu stigi því verkalýðsforystan tók tillögunum vægast sagt illa.

Spurður hvort SA muni leggja eitthvað nýtt á borðið á fundinum hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag  svarar Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri: „Ég get ekki svarað því núna hvernig við munum bregðast við á fundinum. Hann mun öðrum þræði snúast um það hvernig framhald þessara viðræðna verður háttað."

Spurður hvort hann óttist að kjaradeilan sé nú komin í slíkan hnút að verkföll blasi við svarar hann: „Ég legg ekkert mat á það en bendi á að verkföll valda öllum í samfélaginu tjóni. Bara að atkvæðagreiðsla um verkfall sé boðuð veldur umsvifalaust tjóni í atvinnulífinu, kostnaðarsömu tjóni sem dregur úr getu þess til að standa undir launahækkunum til framtíðar. Ég bind því vonir við að til verkfalla komi ekki."

Halldór Benjamín segist ekki útiloka að aðilar vinnumarkaðarins muni funda með ríkisstjórninni aftur en segir að slíkur fundur hafi ekki verið boðaður.

Í dag er staðan þannig að SGS, fyrir utan Eflingu og VLFA, og Landssamband íslenskra verlsunarmanna (LÍV), fyrir utan VR, hafa ekki vísað sínum málum til ríkissáttasemjara. Eiga þau, ásamt samfloti iðnaðarmanna, enn í viðræðum við SA um nýjan kjarasamning.

„Það er gangur í þeim viðræðum. Þar snýst samtalið um að ljúka kjarasamningum," segir Halldór Benjamín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .