„Þetta er svipað hjá okkur og öðrum. Til skemmri tíma litið gerum við einhverjar ráðstafanir en til lengri tíma verður þetta vandamál,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, í samtali við Morgunblaðið . Þar er greint frá því að sjávarútvegsfyrirtæki hafi ekki getað afgreitt pantanir til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins frá 20. apríl sl. þegar verkföll félaga innan Bandalags háskólamanna hófust á Matvælastofnun.

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í samtali við Morgunblaðið að kaupendur treysti á að fá vöruna afhenta á umsömdum tíma og þurfi hugsanlega að leita annað. Dragist verkfallið á langinn séu upphæðirnar fljótt komnar í milljarða.

Hann bendir einnig á að málið snúi ekki aðeins að sjávarútveginum. „Ef ekki er hægt að flytja út vörur kemur það fljótt fram í gjaldeyrisöflun og snertir því alla þjóðina,“ segir Haukur.