Íslenska fyrirtækið Controlant hefur vaxið gífurlega hratt á síðustu tveimur árum, ekki síst vegna samnings um eftirlit með dreifingu Covid-bóluefni lyfjafyrirtækisins Pfizer. Starfsmönnum Controlant fjölgaði um 225 í fyrra og nú starfa yfir 370 manns hjá félaginu, þar af yfir 300 á Íslandi. Auk Íslands er Controlant með starfsstöðvar í Bandaríkjunum, Hollandi og Póllandi.

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, segir að fyrirtækið hafi verið lánsamt að finna gott starfsfólk á þessu sviði hér á landi. Hins vegar sé Ísland lítið land og tæknifyrirtæki hér keppast um sömu bitana á vinnumarkaðnum.

„Þetta er takmörkuð auðlind. Við sjáum fram á mikla aukningu í starfsmannafjölda hjá okkur og mér sýnist að hún verði að stórum hluta til erlendis hjá okkur. Við getum ekki bara tvöfaldað þróunarteymið okkar á Íslandi, það er bara ómögulegt.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.