Evrópski seðlabankinn getur ekki beitt stjórn peningamála með þeim hætti að hún ráðist að rótum skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Það er ríkisstjórna í evruríkjunum að taka sig á og innleiða regluverk sem getur gert það, að sögn Mario Draghi, bankastjóra evrópska seðlabankans.

Draghi ræddi m.a. skuldakreppuna á fundi í Amsterdam í Hollandi í dag og benti á að enn ríkti í óvissa í ríkisfjármálum evruríkjanna þar eð skuldakreppan væri enn óleyst. Það komi m.a. í veg fyrir að samkeppnishæfni aukist innan myntsvæðisins.

Bloomberg-fréttaveitan bendir á að stjórnvöld á Grikklandi og Spáni eigi í mestu vandræðum með að draga löndin upp úr skuldafeninu og efnahagssamdrætti sem hafi m.a. orðið til með samdrætti í fjárfesetingum og niðurskurði. Jafnframt er rifjað upp að Draghi hafi sagt að versni aðstæður innan evruríkjanna þá muni evrópski seðlabankinn bretta upp ermarnar og beita sér fyrir því að örva efnahagslíf landanna.

Á fundinum benti Draghi hins vegar á að evrópski seðlabankinn geti beitt ýmsum ráðum til að halda verðlagi stöðugu og halda verðbólgu innan marka. Hann geti hins vegar ekki gripið fram fyrir hendurnar á öðrum innan einstakra landa, s.s. einkageirans.