Skerðing á framlagi ríkisins til kirkjugarða er vel umfram þær skerðingar sem ríkisstofnanir hafa þurft að taka á sig vegna efnhagshrunsins. Framlagið nægir nú ekki til þess að kirkjugarðar geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Þetta kemur fram í grein Þórsteins Ragnarssonar, forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur og formanns Kirkjugarðasambands Íslands, í Morgunblaðinu í dag.

Þar kemur fram að á meðan byggingarvísitalan hefur hækkað um tæp 40% frá 2014 þá hefur framlag til kirkjugarða hækkað um 2,9%. Hefur þetta orðið til þess að sumarstarfsmenn eru mun færri í dag en þeir voru árið 2008 þrátt fyrir að kirkjugarðar á höfuðborgarsvæðinu hafi stækkað um tíu hektara. Auk þess hafa vélar og tæki ekki verið endurnýjuð með eðlilegum hætti.

Þórsteinn segir umhirðu í kirkjugörðum mjög ábótavant. Þá sýni nýlegar skýrslur að engin leið sé fyrir þessar stofnanir að halda uppi þeirri þjónustu og umhirðu sem lög gera ráð fyrir.