Þar til í júlí árið 2011 fóru allir þeir sem leituðu til umboðsmanns skuldara jafnóðum í greiðsluskjól. Eftir það var reglum breytt á þann veg að umsóknir voru metnar svo þeir sem ekki uppfylltu skilyrði um greiðsluaðlögun voru ekki settir í greiðsluskjól. Aðspurð hvort margir hafi misnotað úrræðið framan af telur Ásta Sigrún svo ekki vera „Það er nú ekki hátt synjunarhlutfall hjá okkur. Hins vegar er það svo að ef þér er synjað um heimild til greiðsluaðlögunarumleitana þá er það kæranlegt til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Þar er mjög mikill málafjöldi. Velferðarráðuneytið hefur verið að styrkja þá nefnd en þeir sem sóttu um fyrir júlí 2011 og fengu synjun geta enn verið í greiðsluskjóli á meðan þeir bíða afgreiðslu kærunefndar.“

Ásta Sigrún bætir við að hlutverk nefndarinnar sé mikilvægt enda hjálpi það þeim með framkvæmd laganna. Hún skeri úr um ýmis atriði. Hingað til hefur verið sjaldgæft að kærunefnd snúi við niðurstöðu umboðsmanns en Ásta segir mörg mál enn til athugunar þar svo annað kunni að koma í ljós. „En það er þannig í öllum kerfum að einhverjir reyna að misnota þau. Við megum samt ekki láta það lita úrræðið af því að stærsti hópurinn sem til okkar leitar er fólk sem vill fá hjálp og fer af heiðarleika í gegnum ferlið.“

Ásta Sigrún Helgadóttir er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.