Kaupaukakerfi Íslandsbanka hefur verið víkkað út og fá nú fleiri bónusgreiðslur. Áður náði kaupaukakerfið aðeins til framkvæmdastjórnar. Nú nær það til um hundrað starfsmanna. Morgunblaðið segir árangurstengdar greiðslur geta að hámarki numið 25% af árslaunum.

Morgunblaðið segir að Íslandsbanki hafi útvíkkað kaupaukakerfið í nóvember í fyrra. Þar segir að kaupaukakerfið byggi á ströngum ramma sem er settur af Fjármálaeftirlitinu (FME). Sá rammi sé hins vegar ekki fullnýttur heldur nemi kaupaukagreiðslur að meðaltali um 14% af árslaunum.

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag voru starfsmenn Íslandsbanka 1.079 talsins í lok desember 2012.