Hjá Ægi sjávarfangi í Grindavík og Hraðfrystihúsinu Gunnvör í Hnífsdal er  framleiðslugeta upp á um 20 milljóna dósa á ári af niðursoðinni þorskalifur.  Á næstu þremur  árum er stefnt  að því að framleiðslugetan verði fullnýtt. Uppistaða  framleiðslunnar fer á erlenda markaði þar af um helmingur til Rússlands um þessar mundir.

Fyrirtækin er  með framleiðslustöðvar í Grindavík og Súðavík og reka sameiginlea sölu- og markaðsfyrirtækið Ican Sales ehf.  fyrir vörur sína.

Stjórnarformaður Ægis sjávarfangs og framkvæmdastjór Ican Sales ehf.  er Guðmundur Pétur Davíðsson og framkvæmdastjóri Ægis Sjávarfangs er Björn Sigtryggsson. Það var í mörg horn að líta þegar Fiskifréttir heimsóttu Ægi  í Grindavík fyrir skemmstu. Verksmiðjurnar tvær  eru núna einu niðursuðuverksmiðjurnar hér  á landi sem geta sótt inn á hinn eftirsóknarverða markað í Rússlandi og tollabandalagslönd þeirra sem er Hvíta-Rússland, Kyrgyzstan,  Armenía  og Kazakhstan þar sem spurn eftir niðursoðinni lifur byggir á rótgrónum neysluhefðum frá tímum Sovétríkjanna. Niðursuða á þorskalifur hefur verið hér á landi allt frá árinu 1965 og var stór þáttur í sölusamningum við gömlu Sovétríkin á sínum tíma.  Frá hruni þeirra lögðu margir niður sína vinnslu.  Síðan 2006 hefur verið vöxtur í þessari vinnslu á Íslandi og sérstaklega síðustu ár.

45 milljónir dósa á Íslandi

Samstarf Ægis sjávarfangs og Hraðfrystihússins Gunnvarar er náið í gegnum sölufyrirtækið Ican Sales ehf.  Unnið hefur verið í beinni sölu og markaðssetningu fyrirtækjana síðustu 7 árin. Selt er bæði undir eigin vörumerkjum og vörumerkjum annarra á mismunandi mörkuðum.  Sala á  vörumerkjum félaganna sem eru Westfjords og Ican hefur gengið vel síðan samstarfið hófst og er um 30% af framleiðslu fyrirtækjanna.

Guðmundur segir að framleiddar séu um 45 milljónir dósa á ári af niðursoðinni þorskalifur á Íslandi á ári og um 65 milljónir dósa í heiminum.    Markaðshlutdeild Íslands er því stór í þessum vöruflokki.   Á íslandi eru 6 niðursðuverksmiðjur sem sinna þessum markaði.  Stærsti framleiðandinn er Akraborg sem er í eigu Lýsis hf. sem er með um 46% af framleiðslunni á Íslandi.  Iðnaðurinn lenti í ólgusjó þegar   Úkraínudeilan hófst 2014 vegna mikillar óvissu í sölumálum og birgðasöfnunar.

Verð á uppleið

Sem kunnugt er settu Rússar viðskiptabann á íslenskar sjávarafurðir vegna stuðnings landsins við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum. Viðskiptabannið nær þó ekki til niðursuðuvöru. Í Rússlandi er mikil hefð fyrir neyslu á þorskalifur og Rússar eru ekki sjálfum sér nægir um hráefni til framleiðslunnar vegna breyttra vinnsluaðferða og veiða . Guðmundur segir að verðin hafi farið upp á við eftir lægðina í kjölfar Úkraínudeilunnar en þó ekki náð sömu hæðum og fyrir hana.

Um helmingur allrar framleiðslu Ægis og HG fer til Rússlands en Frakkland, Þýskaland, Hvíta-Rússland og Ísrael eru einnig mikilvægir markaðir.

Baráttan um hráefnið

Snar þáttur í rekstri fyrirtækja á þessu sviði eru hráefnisaðföng. Lifur er takmörkuð auðlind og margir um hituna, ekki síst lýsisframleiðendur. 5% af heildarþyngd þorks er lifur.  Hráefnið þarf ennfremur að vera ferskt og vel meðhöndlað til að vera hæft til niðursuðu.  Hráefnisflæðið kemur frá ferskfiskvinnslu og niðursuðuverksmiðjurnar á Íslandi framleiða einungis  úr ferskri lifur.

„Það má ganga betur um hráefnið til þess að tryggja betri nýtingu til framleiðslunnar. Það er hvati fyrir sjómenn að standa vel að þessu með hækkandi skilaverðum á lifur.   Kvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári er 270 þúsund tonn og má því áætla að til falli 13.750 tonn af lifur en hún skilar sér ekki öll á land, t.a.m. ekki frá frystitogurum. Guðmundur telur líklegt að um 10.000 tonn af lifur komi inn á markaðinn sem fer þá í niðursuðu og lýsisframleiðslu.

„Með betri nýtingu á hráefninu ætti tæknilega að vera hægt að framleiða hér á landi 80 milljónir dósa sem er næstum helmingi meiri framleiðsla en nú er.  Lifur frá stærri skipum getur verið orðin 5-7 daga gömul þegar hún kemur inn til okkar. Þá er hún farin að umbreytast í lýsi og ekki hægt að sjóða hana niður.“

Verið er að vinna með útgerðaraðilum hvernig megi bæta meðferð og geymslu á ferskri lifur þar sem tækifærin til aukningar á verðmætum með auknu magni liggja þar.

Thai Union kaupir hlut í Ægi

Thai Union, eitt af stærstu sjávarafurðafyrirtækjum heims hefur keypt stóran hlut Ægi sjávarfangi. Meðal fyrirtækja innan Thai Union fyrirtækjasamstæðunnar eru þekktir framleiðendur eins og  King Oscar, Chicken of the Sea, John West, Petit Navire, Parmentier ,Mareblu. Thai Union er með 47 þúsund starfsmenn víða um heim og er meðal annars stærsti framleiðandi niðursoðins túnfisks en fimmta hver dós af niðursoðnum túnfiski sem seld er í heiminum er frá Thai Union.

Mikilvægt fyrir íslenskan niðursuðuiðnað

„Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur og íslenskan niðursuðuiðnað í heild að tengjast þessu öfluga fyrirtæki. Samstarf við Thai Union veitir vörum okkar ákveðið söluöryggi og aðgang að sterku sölu- og dreifikerfi sem opnar möguleika á markaðssetningu út úm allan heim á þeim niðursuðuvörum sem er hugsanlega er hægt að framleiða hér á landi,“ segir Guðmundur P. Davíðsson stjórnarformaður Ægis sjávarfangs.

Vörumerki Ægis sjávarfangs eru iCan og Westfjords. Samstarf sem verið hefur í sölu- og markaðsmálum milli verksmiðju Ægis í Grindavík og niðursuðuverksmiðju HG í Hnífsdal verði haldið áfram en hjá þessum tveimur verksmiðjum eru í dag um 30 stöðugildi í framleiðslu-og markaðsmálum.

Vottun um sjálfbærar veiðar skipti máli

Í tilkynningu sem Thai Union hefur sent frá sér vegna viðskiptanna segir framkvæmdastjórinn, Thiraphong Chansiri, að Ægir sjávarfang hafi í nærfellt aldarfjórðung verið þekkt fyrir að framleiða eina bestu þorskalifur á markaðinum og segir hann að fjárfestingin í Ægi muni styrkja stöðu King Oscar sem leiðandi aðila á markaði fyrir niðursoðnar sjávarafurðir. Thai Union keypti norska fyrirtækið King Oscar árið 2014 en það er með sterka markaðsstöðu í Noregi, Bandaríkjunum, Póllandi, Belgíu og Ástralíu.

Þorskalifur er fyrst og fremst unnin í þremur löndum sem hafa aðgang að norður Atlantshafs þorskstofninum en það eru Ísland, Noregur og Rússland og kemur um 70% af heimsframleiðslu niðursoðinnar þorskalifur frá Íslandi.