Beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis voru skráðar að heildarverðmæti 927,9 milljarðar króna í árslok 2006. Raunverulegt virði þessara eigna gæti verið á bilinu 1300 ? 1400 milljarðar og árlegar tekjur af þeim á bilinu 100 til 180 milljarðar. Þetta kemur fram í leiðara Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í nýjasta fréttabréfi samtakanna.

Í leiðaranum eru útreikningar Seðlabankans á viðskiptahalla harðlega gagnrýndar. Er þar bent á að verðmæti beinna fjárfestinga á Íslandi sé líka vanmetið og tekjur af þeim. Eign Íslendinga í skráðum verðbréfum námu 589,7 milljörðum í árslok 2005 og 922,4 milljörðum í árslok 2006. Viðbótarfjárfestingin á árinu í skráðum verðbréfum var talin vera 93,1 milljarður þannig að nú skyldi ætlað að verulegar tekjur hefðu myndast.

"Ekki svo segir Seðlabankinn og telur að arðsemi þeirra hafi aðeins verið 1,2% á síðasta ári sem er tala vel innan við 10 milljarða. Rauverulegar tekjur af þessum eignum hafa hins vegar verið í kringum 150 milljarðar sem vantar alveg inn í tekjur landsmanna samkvæmt aðferðum þjóðhagsreikninganna," segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að samskonar útreikninga sé unnt að gera á öðrum liðum eigna og skulda landsmanna. Það virðist vera verulegt vanmat á fjármagnstekjum og fjármagnsgjöldum bæði af hlutafé og lánsfé. Þegar allt er talið virðist svo sem tekjur af fjármagnseign Íslendinga erlendis séu á bilinu 370 ? 480 milljarðar króna og gjöld vegna skulda Íslendinga erlendis og erlendra fjárfestina á Íslandi séu á bilinu 310 ? 360 milljarðar.

Þessar tölur eru í miklu betra samhengi við eigna- og skuldasafnið en tekju- og gjaldafærslurnar í greiðslujafnaðartölunum frá Seðlabankanum. Mismunur tekna og gjalda er því Íslendingum í hag um 10 ? 170 milljarða meðan tölur Seðlabankans meta þær sem 100 milljarða halla. "Ekki er ólíklegt að afgangurinn af þessum liðum sé yfir 50 milljarðar þannig að raunverulegur viðskiptahalli sé jafnvel innan við helmingur af því sem fram hefur komið. Það er vissulega mikill viðskiptahalli en hvorki óeðlilegur né óviðráðanlegur í ljósi mikilla fjárfestinga í íslensku atvinnulífi á síðasta ári," segir Vilhjálmur í leiðara sínum.