„Nýja ríkisstjórnin getur gert út um olíuævintýri Íslendinga,“ er yfirskrift á vef norska blaðsins Aftenbladet . Í greininni segir að í stjórnarsáttmála nýju hægristjórnarinnar í Noregi sé kveðið á um að ekkert verði borað á Jan Mayen hryggnum.

Fjórðungur af þessu svæði tilheyrði Íslandi og Íslendingar höfðu jafnframt rétt á að leita að olíu og gasi á fjórðungi af því svæði sem tilheyrir Noregi. En vegna ákvörðunar nýju norsku stjórnarinnar minnkar það svæði sem Íslendingar geta unnið á næstu fjögur árin um helming.

Terje Hagevang, stjórnarmaður í Eykon Energy, sem er að stærstum hluta í eigu Íslendinga, telur að þessi tíðindi muni valda Íslendingum miklum vonbrigðum. Þá segir í greininni að Ísland verði af milljarða fjárfestingu vegna þessarar seinkunnar.