Valitor ætlar að setja í gang prófverkefni í haust þar sem 1.000 snjallsímaeigendum verður gert kleift að borga fyrir vörur og þjónustu með farsímum sínum. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segist sannfærður um að framtíðin liggi, að hluta til að minnsta kosti, í slíkum viðskiptum. „Visa í Evrópu hefur spáð því að í árslok 2013 verði um 15% kortaveltu í gegnum farsíma, sem er mikil fjölgun frá því sem nú er.“

Ekki er um það að ræða að snjallsímanotendurnir kaupi vörur í gegnum netið, heldur byggir tæknin á svokölluðum nærsamskiptum (e. near field communication, NFC), þar sem farsíminn notar raf bylgjur til að tengjast öðrum síma eða tæki eins og kortaposa. Yfir þessa tengingu skiptist síminn og móttökutækið svo á fjárhagsupplýsingum. Fyrir notandann þýðir þetta að til að inna af hendi greiðslu leggur hann einfaldlega símann upp að posanum og greiðir þar með fyrir viðkomandi vöru.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.