Opinn umræðfundur Litla Íslands þar sem rætt verður um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og yfirstandandi kjaraviðræður fer fram á Grand Hótel Reykjavík á morgun, þriðjudag, frá 8:30-9:30. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins .

Yfirskrift fundarins er „Geta litlu fyrirtækin hækkað kaupið?“, og spurningin er sett í samhengi við það að hægja sé á vexti efnahagslífsins og blikur séu á lofti.

Á fundinum munu atvinnurekendur segja sögur af Litla Íslandi ásamt því að birtar verða nýjar tölur frá Hagstofu Íslands um launagreiðslur og umfang lítilla fyrirtækja, en Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði SA mun fjalla um þær.

Fundarstjóri verður Sigmar Vilhjálmsson, atvinnurekandi, og þeir sem segja munu sögur af rekstri fyrirtækja sinna eru Brynja Brynjarsdóttir, eigandi Hraunsnefs sveitahótels, Eva Hlín Dereksdóttir, framkvæmdastjóri Raftákns verkfræðistofu, Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar, og Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Rok restaurant.

Þá mun Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðar fjalla um mikilvægi lítilla fyrirtækja.

Litla Ísland er vettvangur á Samtaka atvinnulífsins „þar sem lítil fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum,“ og var stofnað árið 2013.