Fjárfestar tóku vel í uppgjör Sjóvá fyrir síðasta ár og hækkaði gengi hlutabréfa félagsins úr 19,7 krónum á hlut upp í 21,8 krónu á hlut á tæpri viku. Gengið stóð í 21,8 krónu á hlut við lokun markaða þann 19. febrúar sl. og hafði gengi bréfa félagsins aldrei verið hærra. Næstu daga á eftir hóf gengi bréfa félagsins að falla, líkt og annarra félaga í Kauphöllinni, vegna óvissunnar sem COVID-19 veiran hefur í för með sér.

„Það er ánægjulegt hvað markaðurinn hefur verið jákvæður gagnvart okkar rekstri en nú eru blikur á lofti og markaðurinn því að reyna að átta sig á því hvernig þetta muni allt saman þróast. Undirliggjandi rekstur Sjóvá er mjög sterkur og það hefur ekkert breyst í því. En það er einkenni markaða að þegar óvissa ríkir halda menn að sér höndum," segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.

Hermann segir að COVID-19 veiran hafi þegar haft skaðleg áhrif á íslenska hagkerfið, en reiknar þó með að áhrifin verði til skamms tíma.

„Þegar horft er á markaði og fleiri lykilþætti sést greinilega að veiran hefur þegar haft neikvæð áhrif á hagkerfið, a.m.k. í bili. Dregið hefur úr ferðalögum til og frá landinu, og hefur koma ferðamanna til Íslands dregist verulega saman. Til skemmri tíma mun veiran því hafa slæm áhrif á íslenskt hagkerfi en til lengri tíma tel ég að þetta muni jafna sig. Hagkerfi víða um heim hafa staðið af sér heimsfaraldra og ég er sannfærður um að íslenska hagkerfið og heilbrigðiskerfið sé vel í stakk búið til að takast á við COVID-19.

Stjórnvöld, Landlæknisembættið og Almannavarnir hafa unnið þrekvirki á degi hverjum og aðdáunarvert hve vel hefur verið brugðist við þessum faraldri. Það gefur góð fyrirheit um að þjóðin öll sé að gera sitt allra besta til þess að ná tökum á þessu ástandi."

Óttast þú að veiran kunni að hafa neikvæð á rekstur Sjóvá?

„Við vinnum reglulega áhættumat á okkar starfsemi. Við erum að bjóða upp á persónutryggingar og því er þáttur í þessu áhættumati að meta hvaða áhrif heimsfaraldur kynni að hafa á félagið. Okkar úttektir benda ekki til annars en að við ráðum vel við ástandið - okkar innviðir, bæði fjárhagslegir og þjónustulegir, eru til staðar til að mæta áhrifum veirunnar."

Að sögn Hermanns hefur Sjóvá undirbúið aðgerðaáætlun ef til þess kæmi að loka þyrfti höfuðstöðvum félagsins tímabundið.

„Við erum með sérstaka áhættunefnd sem hefur hist nánast daglega til að taka stöðuna. Við höfum lagt upp með að hlýða í hvívetna tilmælum Landlæknis og Almannavarna. Okkur þykir á þessu stigi máls ekki ráðlegt að grípa til sjálfstæðra ráðstafana, heldur fylgjumst við vel með tilmælum fyrrnefndra aðila og bregðumst við þeim.

Við höfum lagt upp með að koma til móts við það starfsfólk okkar sem er með veikara ónæmiskerfi en gengur og gerist, með því að bjóða þeim aðilum upp á möguleikann á að vinna heima. Við erum tilbúin með aðgerðaáætlun innan fyrirtækisins sem hægt væri að virkja á innan við klukkustund ef til þess kæmi að rýma þyrfti húsið vegna gruns um smit. Áætlunin gerir ráð fyrir að starfsfólk geti sinnt þjónustu okkar úr sínum heimahúsum og hafa því allir lykilstarfsmenn nú þegar verið fartölvuvæddir."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .