Forsetaefni munu geta safnað meðmælendum fyrir komandi forsetakosningar með rafrænum hætti setji ráðherra svohljóðandi reglugerð. Bráðabirgðabreyting þess efnis, á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, var samþykkt á Alþingi í gær.

Í greinargerð með frumvarpinu, sem lagt var fram af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, segir að erfitt geti reynst mögulegum frambjóðendum að safna meðmælendum með hefðbundnum hætti. Vanalega hefur þurft undirskrift meðmælenda í verkið og umbjóðendur frambjóðenda komið sér fyrir á fjölförnum stöðum til að safna þeim saman. Covid-19 faraldurinn gerir slíkt hins vegar erfiðara en áður.

Lögin fela í sér ákvæði til bráðabirgða sem fellur úr gildi um næstu áramót. Þar segir að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að meðmælum verði safnað rafrænt. Umrædd reglugerð þarf meðal annars að mæla fyrir um viðmót hjá Þjóðskrá fyrir verkið, tegund rafrænnar auðkenningar, meðferð persónupplýsinga og varðveislu og eyðingu gagna.

Mælt var fyrir frumvarpinu á þingfundi í gær og þremur umræðum um það lokið með afar snöggum hætti. Alls leið tæpur hálftími frá framsöguræðu og þar til frumvarpið var orðið að lögum en viðbúið er að það hefði tekið skemmri tíma ef hefðbundið form atkvæðagreiðslna væri virkt. Sökum veirufaraldursins koma þingmenn nú í halarófu einn í einu inn í salinn til að greiða atkvæði.

Kjörtímabil sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar, rennur út í sumar. Ástæðan fyrir því að heimildin nú er tímabundin er að vinna við nýja heildarlöggjöf um framkvæmd kosninga er langt á veg komin en frumvarpsdrög eru nú til samráðs í Samráðsgátt ríkisstjórnarinnar.