Skattayfirvöld geta farið fram á það að Jón Ásgeir Jóhannesson verði gerður gjaldþrota í ljósi þess að eignir hans, sem Skattrannsóknarstjóri fór fram á að yrðu kyrrsettar, duga ekki nema að hluta fyrir þeim 250 milljóna króna eignum sem farið var fram á að yrðu kyrrsettar.

Lögum samkvæmt geta skattayfirvöld krafist þess að Jón Ásgeir verði tekinn til gjaldþrotaskipta þar sem kyrrsetningarbeiðnin var árangurslaus að hluta.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru miklar líkur á að þess verði krafist að Jón Ásgeir verði tekinn til gjaldþrotaskipta. Verði það gert verður að lokum tekist á um það fyrir dómstólum, sem að endingu úrskurða um gjaldþrot.

Það sama á við um Hannes Smárason en skattrannsóknarstjóri fór fram á að eignir upp á 150 milljónir yrðu kyrrsettar. Aðeins var hald lagt á rúmlega ellefu milljóna króna eignir hjá Hannesi og því aðeins lítill hluti heildarinnar sem hægt var að kyrrsetja svo kröfur yrðu uppfylltar.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .