Áætlanir stjórnvalda í Norður Kóreu um að skjóta fjórum meðaldrægum flaugum í átt að eyjunni Guam geta orðið að veruleika innan nokkurra daga, að því er segir í ríkisútvarpi kommúnistaríkisins. Breska ríkisútvarpið BBC , greinir frá þessu.

Áætlað er að flaugarnar fljúgi austur og yfir japan áður en þær myndu lenda um 30 til 40 kílómetrum undan strönd eyjunnar sem er undir stjórn Bandaríkjanna og hýsir þúsundir bandarískra hermanna í einna mikilvægustu herstöðvum Bandaríkjanna á Kyrrahafinu.

Bandaríkin settu upp árið 2013 loftvarnarkerfi sem á að geta skotið niður eldflaugar í mikilli hæð af þeirri gerð sem norðurkóresk stjórnvöld hyggjast skjóta en eyjan er meira en 3.000 kílómetra frá Norður Kóreu.

Hótunum mætt með eldi og krafti

Áætlunin um að skjóta flaugunum fjórum kemur í kjölfar hótana Donald Trump Bandaríkjaforeta gegn einræðisríkinu þar sem hann sagði ríkinu fyrir bestu að standa ekki í frekari hótunum gegn Bandaríkjunum. „Þeim verður mætt með eldi, bræði og í raun meiri krafti en þessi heimur hefur nokkurn tíman séð áður,“ sagði Trump.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur stjórn Trump beint spjótum sínum að ógnarstjórninni í Norður Kóreu og fengið flesti ríki í heimshlutanum til að taka þátt í víðtækum refsiaðgerðum gegn ríkinu sem neitar að láta af kjarnorku- og eldflaugatilraunum.

Í síðasta mánuði kom í ljós að ógnin af ríkinu fer stigmagnandi er ríkið skaut á loft nýjum eldflaugum sem gera því kleyft að senda kjarnaodd á meginland Bandaríkjanna. En í síðustu viku birtu greinendur bandarísku leyniþjónustunnar skýrslu þar sem þeir geta sér til að ríkið hafi byggt smáan kjarnaodd sem hægt verður að setja á eldflaugar sem gerir ógnina enn meiri.