Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hafa öll fengið umboð sinna félaga til að slíta kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er líklegt að dragi til tíðinda í viðræðunum þegar deiluaðilarnir fjórir ásamt SA, koma saman til fundar hjá Ríkissáttasemjara í dag, en Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir hins vegar gang í viðræðunum við önnur félög á vinnumarkaði.

Ragnar Þór segir afstöðu samninganefndar VR alveg skýra, þó hann segi ekkert búið að ákveða með framhaldið fyrr en eftir fundinn í dag. Hann segir þó félögin fjögur ætla að hittast fyrir fundinn og stilla saman strengi. „Eins og staðan er í dag mun eitthvað meira þurfa að koma til,“ segir Ragnar Þór.

Sólveig Anna býst ekki við að fá nýtt tilboð frá SA á fundinum með Ríkissáttasemjara í dag, en spurð af því í Fréttablaðinu hvort hún vonist til að hægt verði að afstýra verkföllum segir hún að búið sé að gera það sem fólk telji þurfa og undirbúningurinn sé vel á veg kominn. „Það er ein af stærstu mýtum íslensks samfélags að fólk vilji ekki fara í verkföll. Það er ekki mín reynsla og það hefur aldrei verið mín persónulega afstaða,“ segir Sólveig Anna.

Vilhjálmur Birgisson segir að beðið verði eftir fundinum áður en byrjað verði að boða til verkfalla. „Að sjálfsögðu munum við bara rýna í stöðuna og eins og kom fram í viðtali við Sólveigu Önnu [...] á RÚV þá erum við að sjálfsögðu búin að teikna upp sviðsmyndir í þessum málum,“ segir Vilhjálmur.