Innspýting ríkisins í Landsbankann, Arion banka og Íslandsbanka var nægjanlega mikil til að þeir gætu staðið af sér langvinna og djúpa kreppu á árunum 2009 til 2013. Þetta kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna. Fjármálaeftirlitið (FME) greindi viðskiptaáætlanir bankanna þegar þær lágu fyrir með það fyrir augum að skera úr um „hvort fjárhagslegur styrkur væri nægilegur til að tryggja traustan rekstur“.

Þetta var gert með því að semja nýtt álagspróf sem kallað var Prolonged-Deep-Recessionpróf. Það gerði ráð fyrir langvinnri og djúpri efnahagslægð á árunum 2009 til 2013. Bönkunum þremur var síðan gert að endurreikna viðskiptaáætlanir sínar í samræmi við forsendur prófsins og leiða með þeim hætti í ljós væntanlegt tap sitt ef þær forsendur gengju eftir. Við álagsprófið bætti FME síðan sérstökum forsendum um útlánatap og tafir á endurheimtum lána á fyrstu árum starfsemi eftir hrun.