Við opnun hlutabréfamarkaðar í gær voru skráð viðskipti með bréf í Kaupþingi banka að virði 8,9 milljarðar króna vegna uppgjörs á framvirkum samningi með bréf í bankanum á genginu 893 krónur á hlut, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Gengi hlutabréfa Kaupþings banka hækkaði í gær um 3,5% í 741 krónu á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis, en gengið hefur lækkað um 0,8% frá áramótum og í kringum 20% frá því að samningurinn var gerður. Gengistap viðskiptanna nemur því 152 krónum á hlut, eða um 1,52 milljörðum króna, en um ræðir tíu milljónir hluta.

Ekki er vitað hvaða aðili stendur á bak við viðskiptin. Hins vegar bendir orðrómur á markaði til þess að Glitnir eða Landsbankinn hafi gert samninginn, en Glitnir er skráður fyrir 2,55% eignarhlut í Kaupþingi banka og Landsbankinn í Lúxemborg er skráður fyrir 2,7% hlut.

Getgátur markaðsaðila eru að FL Group hafi gert upp framvirkan samning, en félagið greiddi nýlega fyrir bréf Magnúsar Kristinssonar og Kristins Björnssonar í Straumi-Burðarási að hluta til með bréfum í Kaupþingi að markaðsverðmæti tólf milljarðar króna á genginu 748 krónur á hlut, sem samsvarar rúmlega 16 milljónum hluta. FL Group er formlega skráð fyrir rúmlega fimm milljónum hluta í Kaupþingi.

Ekki náðist í Hannes Smárason, forstjóra FL Group, áður en Viðskiptablaðið fór í prentun.