*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 4. apríl 2019 13:31

Geti ekki bundið hendur Seðlabankans

Ásgeir Jónsson bendir á að kjarasamningar geti ekki bundið hendur Seðlabankans um stýrivaxtahækkanir gerist þess þörf.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, segir nýja kjarasamninga sem skrifað var undir í gær, vera nýja útgáfu af þjóðarsáttarsamningum frá árinu 1990 í færslu á Facebook. Hins vegar sé ljóst að kjarasamningarnir geti ekki bundið hendur Seðlabankans um stýrivaxtahækkanir gerist þess þörf. Ásgeir er einn umsækjenda um starf nýs seðlabankastjóra.

Í kjarasamningunum er uppsagnarákvæði lækki stýrivextir ekki. Gylfi Zöega, nefndarmaður í peningastefnunefnd, sagði í Silfrinu um helgina að verkalýðshreyfingin réði í raun vaxtastiginu. Yrði samið um hóflegar launahækkanir væru allar aðstæður til lækkunar stýrivaxta.

„Gömlu þjóðarsáttarsamningarnir lögðu áherslu á verðbólgu og rauð strik. Þessir samningar leggja áherslu á nafnvaxtastig. Í frjálsu hagkerfi endurspegla nafnvextir verðbólguvæntingar – náið er nef augum. Hins vegar, hefur Seðlabankinn lögbundna skyldu til þess að halda verðstöðugleika - og beita stýrivöxtum. Vonandi mun nú skapast færi til vaxtalækkanna - en þegar til framtíðar er litið geta kjarasamningar ekki bundið Seðlabankann eða varnað því að bankinn hækki vexti - sé þess þörf,“ segir Ásgeir.

Mörg góð skref séu engu síður í kjarasamningunum. Verkalýðshreyfingin hafi svarað gagnrýni, meðal annars frá Ásgeiri sjálfum. Ásgeir gagnrýndi verkalýðshreyfinguna fyrr í vetur fyrir kröfur úr takti við hagsveifluna. „Þess eru mörg dæmi – innanlands og utan – að miklar hækkanir á grunntöxtum hafi leitt til verri kjara hjá hinum verst settu – svo sem vegna verðbólgu, hærri vaxta og aukins atvinnuleysis,“ sagði Ásgeir í febrúar um ganginn í kjaraviðræðunum.

Jákvætt sé að launahækkanir kjarasamninganna séu tengdar hagvexti. „Í litlu opnu hagkerfi hanga allar stærðir saman. Hagvaxtartenging samninganna ætti að skapa hvata til þess að allir vinni saman að verðmætasköpun. Markaðslögmálin eru viðurkennd í reynd – s.s. að besta leiðin til þess að lækka húsaleigu er að auka framboð af húsnæði og lækka vexti,“ segir hann.

Reksturinn áfram þungur í ferðaþjónustu

Þá sé ljóst að aðrar greinar þurfi að taka við af ferðaþjónustunni til að drífa áfram hagvöxt. „Þessir samningar munu hækka launakostnað ferðaþjónustunnar með því að lyfta lægstu töxtum – sem mun verða greininni þungbært. Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi með ein hæstu laun fyrir ófagfærða í Evrópu. Eins og staðan er nú hefði þurft gengisfall til þess að ýta greininni aftur af stað – sem er ekki í boði. Aðrar greinar verða nú að taka við hagvaxtarkeflinu – sem er að sumu leyti mjög jákvætt. Ísland mun áfram vera vaxandi ferðaþjónustuland - en þessi grein mun ekki verða jafn yfirþyrmandi þegar litið er fram í tímann,“ segir Ásgeir.

Búast megi við að fasteignamarkaðurinn kólni. Í kjarasamningunum er mörkuð stefna um að takmarka verðtryggingu og tímalengd fasteignalána. Hækkun fasteignaverðs undanfarin ár hafi að miklu leyti byggt á innkomu lífeyrissjóða á markaðinn sem haft hafi í för með sér lækkun verðtryggðra raunvaxta á fasteignalánum til 40 ára. „Takmörkun á tímalengd verðtryggðra útlána mun breyta styrkleikahlutföllum á lánamarkaði – þar sem bankarnir munu fá nýja stöðu sem helstu veitendur óverðtryggðra lána. Hver áhrifin verða á fasteignamarkaði velta á því hvernig að nafnvextir muni þróast í kjölfarið – en eins og staðan er nú er upphafsgreiðslubyrði verðtryggðra lána mun lægra en óverðtryggðra.“

Stikkorð: Kjaramál