Google-leitarvefurinn hefur tilkynnt að nú sé að finna eina billjón vefsíðna á netinu, þ.e. milljón sinnum milljón síður. Langt er síðan Google gaf upp seinustu tölur um fjölda netsíðna og hefur þeim fjölgað hratt á undanförnum árum. Þegar Google lagði mat á fjölda þeirra fyrst, árið 1998, voru síðurnar 26 milljón talsins en aðeins tveimur árum síðar voru þær einn milljarður að  tölu.

„Á seinustu átta árum höfum við sér mikið af stórum tölum um hversu mikið efnismagn er í raun og veru í netheimum. Upp á síðkastið hafa jafnvel leitarsérfræðingar okkar orðið agndofa gagnvart stærð vefsins,” segja hugbúnaðarverkfræðingarnir Jesse Alpert og Nissan Hajaj hjá Google á bloggsíðu fyrirtækisins.

Risavaxinn listi yfir slóðir

„Hvernig finnum við allar þessar síður? Við byrjum með hóp vel tengdra upphafssíðna og fylgjum öllum slóðum sem þar er að finna að nýjum síðum. Síðan fylgjum við slóðum á nýju síðunum að enn öðrum síðum o.s.frv., þangað til við höfum búið til risavaxinn lista yfir slóðir. Í raun og veru fundum við meira en 1 billjón sjálfstæðra slóða, en ekki liggja allir þeirra til einstakra vefsíðna.”

Google vísar þó ekki á allar þessar slóðir, bæði vegna þess að sumar vefsíðurnar eru nánast eins eða innihalda sjálfvirka efnisþætti á borð við vefdagatöl sem vísa fram til næsta dags og búa þannig sífellt til nýja krækju.