Ég hef alltaf verið haldin mikilli ævintýraþrá,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Ásta var ráðin til Viðskiptaráðs fyrir rétt rúmu ári og hóf störf í byrjun júní. Ásta er verkfræðingur, en samhliða námi flakkaði Ásta töluvert um heiminn og tók meðal annars þátt í uppbyggingarstarfi sem sneri að því hvernig hagnýta og tengja mætti betur rannsóknir í verkfræðiháskóla Malasíu við nýsköpunar og tækniklasasvæði í Iskandar í Malasíu.

Ásta starfaði síðustu ár bæði í Kaupmannahöfn og Tókýó fyrir alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company, eftir að hafa starfað hjá IBM í Danmörku og stoðtækjafyrirtækinu Össur í Frakklandi. Hún fékk afgerandi skilaboð frá Kim Østrup, aðstoðarforstjóra IBM í Danmörku og þáverandi yfirmanni hennar, þar sem hún starfaði samhliða meistaranámi í Danmörku, um að hún væri á kolrangri hillu.

„Ég tók því auðvitað mjög illa enda búin að leggja mikið á mig. Hann sagði að ég væri alveg nógu hæf til að vera í þessari verkfræði en þetta væri ekki mitt rétta svið. Ég ætti að vera í söluog markaðsstörfum,“ segir Ásta. Minni áhersla hefur verið lögð á sölu og markaðsfræði hér en annars staðar og afstaða þjóðarsálarinnar kom fram með spaugilegum hætti í Áramótaskaupinu, þar sem Dóri DNA kenndi þau einföldu lögmál sem virtust gilda um íslenskan smásölumarkað: „kaupa, flytja, smyrja og græða“ – allt þar til Costco kom til landsins.

Besti skólinn sem völ var á

„Ég var eiginlega sármóðguð þegar Kim sagði þetta við mig. Hann benti mér á að verkfræðingar gætu vel búið til góða hluti, en þeir kæmust iðulega ekki lengra með hugmyndir sínar því þá skorti oft þekkingu á markaðssetningu. Í dag skil ég betur þessa ábendingu og í raun mjög þakklát fyrir hana.“ Ásta fékk upphaflega rannsóknarstyrk frá McKinsey til að skoða fyrrnefnt verkefni um tengingu háskóla við nýsköpunarklasa í Malasíu og komst þannig í tengsl við fyrirtækið. Í kjölfarið var henni boðið í starfsviðtal. Kim hótaði að reka hana ef hún færi ekki í starfsviðtalið.

„Þetta kom mér á óvart þar sem ég hafði ætlað mér að starfa áfram með Kim en hann sagði að þetta væri besti skóli sem ég kæmist nokkurn tíma í og bauðst til að ráða mig aftur um leið og ég hætti hjá McKinsey. Úr varð að ég fór yfir til McKinsey og vann þar í fimm ár og á enn eftir að rukka Kim um endurráðninguna. Hann hafði svo sannarlega rétt fyrir sér því í ráðgjöfinni hjá McKinsey lærði maður á ákveðinn hátt að þróa og selja verkefni. Í þessum heimi sem við búum í í dag þurfum við að geta sett okkur í spor og talað mál viðskiptavinarins, selt hugmyndir okkar, komið fram og kynnt í stuttu og hnitmiðuðu máli það sem við höfum til málanna að leggja – og helst myndrænt. Þarna eru aðrar þjóðir mun sterkari en við. Við þekkjum öll hvernig Bandaríkjamenn eru, þeir mæta á svæðið og allir vita af þeim um leið,“ segir Ásta. „En við þurfum auðvitað að gera þetta á okkar eigin hátt. Við getum samt ekki bara verið alveg inni í skelinni og beðið eftir að einhver komi og banki upp á hjá okkur,“ segir Ásta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .