Í fyrra lagði MP banki á svokallað viðskiptagjald á viðskiptavini sína sem hafa innistæður undir tveimur milljónum króna. Aðgerðin var liður í því að takmarka fjölda viðskiptavina hjá bankanum og þeirri stefnu verður haldið áfram í sameinuðum banka. En hvort er MP Straumur viðskiptabanki eða fjárfestingabanki?

„MP Straumur hefur lagað sig að breyttum tímum og skerpt á rekstrinum,“ segir Sigurður. „Nýjar höfuðstöðvar bankans í Borgartúni verða ekki með hefðbundið útibú eins og almenningur þekkir. Smærri fyrirtækjum stendur því ekki til boða sama þjónusta og verið hefur í höfuðstöðvum MP banka í Ármúla. Bankinn hefur mótað sér þá stefnu að sinna fjármögnun til skemmri tíma í umbreytingarverkefnum. Hann hyggst draga úr starfsemi tengdri fjármögnun á rekstri fyrirtækja en fjármagna kaup og sölu á fyrirtækjum. Að einhverju leyti getur það ruglað umræðuna að það er munur á þeim starfsleyfum sem fyrirtæki er með og þeim áherslum sem menn eru með í starfseminni. MP Straumur er með fullt viðskiptabankaleyfi sem þýðir að við tökum við innlánum og getum lánað út peninga. Við nýtum það leyfi hins vegar sem sérhæfður banki.

Eins og ég sagði þá höfum við takmarkaða efnahagslega stærð og förum þess vegna varlega með það fjármagn og keppum á syllu sem sérhæfður banki. Við erum hörð á þeirri stefnu og höfum verið það undanfarin ár. Hins vegar erum við með mýkt og sveigjanleika í samskiptum við okkar viðskiptavini sem skapar okkur samkeppnisforskot. Við erum með tiltölulega færri viðskiptavini en aðrir en við þjónustum þá líka vel. Menn verða að velja og hafna í þessum efnum. Okkar líkan er þrengra að þessu leytinu til. Við getum ekki boðið allt fyrir alla.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .